Bryggjudagur við Herjólfshúsið

herjolfshus01Á morgun, laugardag, verður aftur efnt til bryggjudags í Þorlákshöfn. Það er handverksfélag Ölfuss og þeir sem standa að rekstri Herjólfshússins sem skipuleggja dagskrá sem stendur yfir frá klukkan 14:00-17:00.

Handverksfólk verður að störfum í Herjólfshúsinu, börnum býðst að mála og leira í listasmiðju og þeir sem hafa áhuga geta tekið þátt í skottsölu.

Dorgveiðikeppni hefst klukkan 14:00 og eru þeir sem eiga veiðistöng hvattir til að taka hana með. Í Herjólfshúsi er hægt að fá nokkrar veiðistangir lánaðar auk björgunarvesta. Björgunarsveitin verður á svæðinu og heitt vatn í kari fyrir þá sem vilja stökkva í sjóinn. Klukkan 15:00 verður síðan Taekwondo kynning. Haldin verður smá sýning á því sem hægt er að gera ef maður kann réttu tæknina, spítur, múrsteinar og fleira verður brotið og sýnt hvernig taekwondo bardagi fer fram. Svo geta börn og fullorðnir prufað að sparka í púða og gert allskonar æfingar.

Baldur Loftsson mætir á svæðið og spilar á harmonikkuna og ýmis tilboð verða á varningi Herjólfshússins.