Stefna á að opna rússíbana niður Kambana

Dóra Björk, markaðsstjóri Zalibunu.
Dóra Björk, markaðsstjóri Zalibunu.

Fulltrúar frá fyrirtækinu Zalibuna.is mættu á fund skipulagsnefndar Ölfus á dögunum og kynntu fyrir nefndinni hugmynd þeirra um að opna rússíbana niður Kambana í Ölfusinu. Hafnarfréttir vildu forvitnast meira um þetta framtak og heyrðu í Dóru Björk Þrándardóttur markaðsstjóra Zalibunu.

„Við stefnum á að opna rússíbanann vorið 2015 og verður hann um 1.250 metrar að lengd með 120 metra hæðamismun. Við erum ekki búin að fjármagna verkefnið en höfum fengið jákvæð viðbrögð frá bönkum um að fá hluta stofnfjárþarfarinnar lánaðan. Annars höfum við verið að ræða við nokkra sjóði og einstaklinga og munum á næstu vikum funda með þeim til þess að fá skýrari mynd á fjármögnunina.“ Sagði Dóra Björk aðspurð út í rússíbanann og fjármögnun hans.

Zalibunu hópurinn kom fyrst saman í áfanganum Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana í Háskóla Íslands. Hugmyndin að rússíbananum varð til eftir að Davíð Örn, framkvæmdastjóri Zalibunu, sá myndband á Youtube þar sem rússíbana áhugamaður fór niður svokallaða eins manns sleðarennibraut í Austurríki. „Þessi maður hafði þá farið í yfir 900 rússíbana og sagði að þessi hefði verið toppurinn. Myndbandið var það vinsælasta á youtube í heila viku og okkur fannst þetta vera mjög spennandi. Þannig ákváðum við að búa til viðskiptaáætlun um að setja svona braut upp í Kömbunum og útbúa flott svæði í kringum þetta.“ Útskýrir Dóra um hugmyndina á bakvið rússíbanann eða eins manns sleðarennibrautina eins og þetta er einnig kallað.

Aðspurð út í aldurstakmark í rússíbanann segir Dóra að brautin sé fyrir alla þá sem hafa líkamlega getu í það. Börn frá 2-7 ára aldri þurfa þó að vera í fylgt með fullorðnum en 7 ára og eldri mega renna sér ein.

Ef vel gengur er þetta aðeins byrjunin hjá Zalibunu. „Við stefnum pottþétt á það að opna fleiri brautir. Við viljum sjá Íslendingum sem og erlendum ferðamönnum fyrir þessari einstöku skemmtun og ef það er markaður fyrir fleiri brautum þá munum við setja þær upp.“ Sagði Dóra Björk að lokum um þetta spennandi verkefni.

Meðfylgjandi er myndbandið frá Austurríki sem heillaði hópinn.