Framkvæmdir í skrúðgarðinum

skruggardur01Nú er unnið að breytingum á skrúðgarðinum í Þorlákshöfn samkvæmt nýrri hönnun. Það var Kvenfélag Þorlákshafnar hóf uppbyggingu skrúðgarðsins árið 1974. Kvenfélagskonur fengu íbúa til að leggja þeim lið með fjármagni og síðan unnu þær af krafti við að útbúa góðan jarðveg og planta trjám og blómum. Í það heila hafa kvenfélagskonur plantað um 4.000 plöntum í skrúðgarðinumá 10 ára tímabili.

Vorið 1984 afhenti kvenfélagið Ölfushreppi garðinn og hafa þær æ síðan hvatt til þess að lokið verði við hönnun garðsins á þann hátt að hann þjóni betur hlutverki sínu sem útivistarsvæði fyrir íbúa bæjarins og gesti þeirra.

Á síðustu árum hefur Hrönn Sverrisdóttir verið fengin til að ljúka hönnun svæðisins og hafa framkvæmdir staðið yfir síðustu daga. Íbúar eru beðnir um að nýta önnur útivistarsvæði á meðan á framkvæmdum stendur, en þeir geta hlakkað til að fylgjast með þeim breytingum sem þarna munu eiga sér stað.