Tindastóll fór létt með Þór

Vee Sanford var besti Þórs í kvöld og skoraði 27 stig.
Vee Sanford var besti maður Þórs í kvöld og skoraði 27 stig.

Þórsarar gerðu ekki góða ferð á Sauðárkrók í kvöld en liðið fékk á sig skell gegn heimamönnum í Tindastól og töpuðu með 20 stigum 110-90.

Tindastóll gaf tóninn strax í byrjun leiks og komst í 14-2 eftir fjögurra mínútna leik. Þórsarar voru í miklu basli með spræka heimamenn í fyrri hálfleik og staðan 63-40 Tindastól í vil í hálfleik.

Leikur Þórs fór örlítið batnandi í síðari hálfleik en þó ekki nógu mikið til að saxa niður forskotið að einhverju viti. Það var ekki fyrr en þegar fjórði leikhlutinn var að verða hálfnaður sem einhvern neista var að sjá á leikmönnum Þórs eftir að Tómas setti niður 2 þrista í röð og Oddur einn. Það var þó full seint í rassinn gripið og Tindastóll náði að svara þessu áhlaupi Þórs og lönduðu að lokum öruggum 110-90 sigri.

Næsti leikur Þórs er á föstudaginn eftir rúma viku, 24. október, þegar Keflavík mætir í Icelandic Glacial höllina í Þorlákshöfn.