Þór áfram í bikarnum eftir sigur gegn KFÍ

Vee Sanford var stigahæstur Þórsara í kvöld.
Vee Sanford var stigahæstur Þórsara í kvöld.

Þórsarar gerðu góða ferð vestur á Ísafjörð í gær en liðið hafði betur gegn KFÍ 71-81 og eru komnir áfram í bikarkeppni karla í körfubolta.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta spýttu Þórsarar í lófana og leiddu 34-42 þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.

Allt annað var upp á teningnum hjá liði Þórs í þriðja leikhluta og söxuðu sprækir leikmenn KFÍ á forskot Þórs og undir lok leikhlutans náðu Ísfirðingar að jafna metin en staðan fyrir síðasta leikhlutann var 54-56 Þór í vil.

Jafnt var með liðunum fyrstu fimm mínútur fjórða leikhluta en þá skellti Þorsteinn Már í þriggja stiga körfu og kom liðinu í 63-66. Þá var ekki aftur snúið og sigldi Þór 10 stiga sigri í höfn eins og fyrr segir 71-81.

Vee Sanford var stigahæstur í liði Þórs með 24 stig og 9 fráköst. Nemanja Sovic 19, Emil Karel Einarsson 17, Tómas Heiðar Tómasson 8, Þorsteinn Már Ragnarsson 7, Baldur Þór Ragnarsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 2 og Halldór Garðar Hermannsson 1.