Jólabókaupplestur á Meitlinum

meitillinn_bokalesturÍ kvöld fer fram bókaupplestur á veitingastaðnum Meitillinn í Þorlákshöfn klukkan 20. Upplesturinn er í samstarfi við Sunnlenska bókakaffið á Selfossi og Bókabæina austanfjalls.

Þrír höfundar munu lesa úr nýútkomnum bókum sínum í kvöld. Bjarni Harðarson, bóksali, verður með bók sína Mörður, Heiðrún Ólafsdóttir les úr skáldsögunni Leið og Jóna Guðbjörg Torfadóttir verður með bókina Orkneyskar þjóðsögur. Árný Leifsdóttir mun hlaupa í skarð Jóhannesar Sigmundssonar og lesa upp úr Gamansögum úr Árnesþingi en Jóhannes kemst ekki sökum veikinda.

Næsti upplestur verður síðan eftir viku, miðvikudaginn 10. des. Þá mæta Guðmundur Brynjólfsson, Sigurður Sigurðsson sem kynnir Teikningar Kristínar frá Keldum og ljóðskáldin Margrét Þ. Jóelsdóttir og Þórður Helgason.