Fríríkið Þorpið í grunnskólanum

grunnskólinn2Í þessari viku standa yfir þemadagar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Þemað er fríríkið „Þorpið“ og ganga nemendur í öll störf þorpsbúa.

Þar eru starfrækt kaffihús, bakarí, konfektgerð og kryddjurtaræktun, götuleikhús, trésmiðja, gler- og steinaverksmiðja, málmsmiðja, nytjamarkaður, listagallerí, saumastofa, kortagerð, hvíldarstöð, skapandi handverk, skartgripaframleiðsla, banki og fjölmiðlasamsteypa.

Nemendur sendu inn atvinnuumsóknir og var úthlutað störfum eftir óskum þeirra og hófu þeir störf á sínum vinnustöðum að morgni mánudags. Allir fá greitt fyrir sín störf í gjaldmiðli fríríkisins, svonefndum „þollara“ sem svo er hægt að nota til þess að kaupa ýmsan varning og góðgæti. Þorpið verður opið fyrir gesti og gangandi, fimmtudaginn 30. apríl og gefst fólki þá kostur á að skipta íslenskum krónum í þollara og njóta alls þess sem Þorpið hefur upp á að bjóða.

Þetta er í annað sinn sem fríríkið Þorpið er starfrækt, fyrra skiptið heppnaðist afskaplega vel og því var mikil tilhlökkun og stemning hjá nemendum og starfsfólki skólans fyrir þemadögunum sem nú eru hafnir.

Við hvetjum alla til að fylgjast með fréttum úr fríríkinu Þorpinu.

Hér að neðan má sjá fjölmiðlasamsteypuna að störfum.