Tvær veltur í Þrengslunum með tveggja mínútna millibili

threngsli01Tvær bílveltur áttu sér stað í Þrengslunum í dag með tveggja mínútna millibili. Fyrri bílveltan varð klukkan 17:40 og hin klukkan 17:42 samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi. Það var mbl.is sem greindi fyrst frá.

Samkvæmt heimildum Hafnarfrétta er talið að ástæðu óhappanna megi rekja til þess að á stuttum kafla í Þrengslunum var slydda á veginum. Annars staðar í Þrengslunum var rigning og þegar ökumenn bifreiðanna keyrðu inn á þetta svæði misstu þeir stjórn á þeim með þeim afleiðingum að þeir enduðu utan vegar. Báðir bílarnir fóru út af á svipuðum stað í Þrengslunum en það eru engin tengsl á milli þeirra.

Þrír voru í öðrum bílnum og tveir í hinum og voru þrír fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Selfossi.