Friðarhlaup í Þorlákshöfn – myndir

2015-07-03Friðarhlaup er í gangi þessa dagana hér á landi og í dag komu hlaupararnir við í Þorlákshöfn. Krakkar úr Þorlákshöfn tóku vel á móti friðarhlaupurunum en hlaupið er alþjóðlegt þar sem hlaupið er um með svokallaðan friðarkyndil.
„Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum. Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað.  Markmið hlaupsins er einfaldlega að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins“ segir á heimasíðunni peacerun.org.
Yfir 100 lönd taka þátt í ár í öllum heimsálfum, þar á meðal er Ísland og er þetta í tíunda sinn sem hlaupið er friðarhlaup hér á landi.
Krakkarnir sem tóku á móti hlaupurunum sungu fyrir þá og síðan var rætt var um frið í heiminum. Einnig fengu allir krakkarnir að halda á kyndlinum og óskuðu þau sér um leið og hugsuðu hlýjar hugsanir um frið í heiminum. Ragnar Matthías Sigurðsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi sveitarfélagsins, tók við viðurkenningarskjali frá hlaupurunum fyrir hönd sveitarfélagsins.