Ölfusingar sjaldan verið fleiri

ráðhúsiðÍ byrjun þessa árs fjölluðum við hjá Hafnarfréttum um íbúaþróun í sveitarfélaginu en íbúum fækkaði um -1,1% frá 1. janúar 2014 til 1. janúar 2015 skv. tölum frá Hagstofu Íslands. Um miðjan apríl birtist svo frétt um að þróunin hefði snúist við. 

Sú jákvæða þróun sem átti sér stað fyrstu mánuði ársins hefur haldið áfram og hafa Ölfusingar sjaldan verið jafn margir og þeir eru í dag. Þegar skoðaðar eru tölur úr Granna, sem er gagnagrunnur sem heldur utan um fjölda íbúa, má sjá að í dag eru 1.948 skráðir íbúar í sveitarfélaginu. Það er svipaður fjöldi og bjó í sveitarfélaginu þann 1. janúar 2010 en þá voru íbúar í Ölfusi 1.952.

Ef miðað er við tölur frá Hagstofunni sem miðast við 1. janúar 2015 og svo nýjustu tölur úr Granna þá má sjá að íbúum hefur fjölgað um rúm 3,3% frá því um áramót. Aldursdreifing þessara nýju íbúa er dreifð en flestir eru þeir á bilinu 20-40 ára og einungis 3% þeirra eru yfir sextugt.

Hafnarfréttir hvetja íbúa til að láta aðra vita af þeim miklu kostum sem sveitarfélagið býr yfir svo þessi jákvæða íbúaþróun haldi áfram.