Þórsarar semja við Bandaríkjamann – myndband

VanceHallMeistaraflokkslið Þórs í körfubolta hefur samið við Vance Hall um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórsurum.

Hall er 193 sentímetra hár og spilar stöðu leikstjórnanda. Hann útskrifaðist úr Bellarmine University 2014 sem er 2. deildar skóli og þar lék hann tvö keppnistímabil en fyrstu tvö tímabilin lék hann með Wright State University í 1. deildinni.

Á lokaári sínu með BU var Hall með að meðaltali 14,7 stig, 4,6 fráköst og 4,7 stoðsendingar og var að hitta 41,4% fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hall verður klár í slaginn með Þórs liðinu í Lengjubikarnum sem hefst 14. september. Í myndbandinu hér að neðan má sjá Vance Hall troða með miklum tilþrifum í leik með BU fyrir tæpum tveimur árum.