Gleðjumst allsgáð í sumar!

Allsgad1FRÆ – Fræðsla og forvarnir, félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu stendur fyrir hvatningarverkefni sem kallast Gleðjumst allsgáð í sumar!

Þetta  árlega forvarnarverkefni FRÆ  snýr að nokkrum þáttum er varða vímuefni og sumarhátíðir en þannig hátíðir eiga sér langa sögu á íslenskum sumardögum.

Verkefnið bendir á atriði sem vert  er að hafa í huga þegar ferðalög og skemmtanahald á sumrin eru á dagskrá.

  • Viðhorf foreldra hafa mikil áhrif á vímuefnaneyslu barna. Tökum höndum saman og vinnum gegn neyslu vímuefna meðal barna og ungmenna með því að sýna ábyrgð og árvekni í sumar.
  • Rannsóknir sýna að tengsl eru á milli ýmissa neikvæðra hliða áfengis- og vímuefnaneyslu og þess að hefja neyslu áfengis á unga aldri. Áfengisneysla eykst verulega frá vori síðasta bekkjar í grunnskóla og fram á haust fyrsta bekkjar í framhaldsskóla, yfir sumartímann.
  • Akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni. Auk þess verða margir fyrir alvarlegu heilsutjóni, jafnvel ævarandi örorku, vegna ölvunaraksturs. Breytum þessu.
  • Vímuáhrif draga úr dómgreind, þ.e. hæfninni til að draga ályktanir og hugsa rökrétt. Ölvun dregur einnig úr hömlum. Ölvuð manneskja á erfiðara með að sjá fótum sínum forráð en ódrukkin og getur orðið sjálfum sér og öðrum hættuleg.

Sýnum ábyrgð og árvekni á hátíðum sumarsins.

Ragnar Matthías Sigurðsson
íþrótta- og æskulýðsfulltrúi