Stór verkefni í Ölfusi

Guðmundur OddgeirssonHeldur hefur íbúum Ölfuss fjölgað það sem af er árinu eða um 3%. Uppgangur hefur verið og er í dreifbýli Ölfuss en Þorlákshöfn hefur átt undir högg að sækja. Einhugur er í bæjarstjórn um að snúa þróuninni við í Þorlákshöfn en einkum tvö mál eru íbúaþróun þar erfið. Uppúr hruninu eignuðust lánastofnanir allmargar íbúðir sem hafa staðið meira og minna tómar síðustu árin og verið til sölu yfirverði. Eftir fund með Íbúðalánasjóði núna í haust standa væntingar til þess að ásett verð taki mið af ástandi eigna og markaðsverði.

Viðvarandi lyktarmengun hefur staðið Þorlákshöfn fyrir þrifum í áraraðir bæði hvað varðar búsetukost og fjölbreytni í atvinnumálum. Þar sem starfsleyfi fiskþurrkunanna renna út á næsta ári er þegar farið að horfa til þess að fiskþurrkun fari út úr bænum sem er lykilatriði eigi Þorlákshöfn að vaxa. Horft er á svæði 4 km vestur af Þorlákshöfn, nokkru fyrir ofan Suðurstrandaveg. Það að fara útfyrir bæinn dugar ekki eitt og sér, því svona starfsemi verður aldrei lyktarlaus, heldur verður að beita nýjustu tækni sem völ er á sem og að setja vinnslugetunni takmörk.

Stærstu málin í skipulagsmálum Ölfuss eru að horfið er frá stóriðjudraumum og lóðir til þeirra ætlaðar verða teknar út úr aðalskipulaginu, nú verður horft til matvælatengdrar starfsemi. Helst er að nefna að allstór svæði vestur með ströndinni frá bænum verða skilgreind fyrir fiskeldi. Það er verið að banka uppá með ýmsar fyrirspurnir og við viljum vera tilbúin með iðnaðarlóðir til þess að stytta skipulags- og framkvæmdatíma.

Umfangsmiklar dýpkunarframkvæmdir standa nú yfir í höfninni sem ganga vonum framar. Að loknum þessum áfanga verður mögulegt að taka til hafnar fragtskip á stærð við þau sem og Eimskip og Samskip gera út, sem og minni skemmtiferðaskip. Löngum hefur verið lagt til á Alþingi að byggð verði stórskipahöfn í Þorlákshöfn sem geti tekið inn skip sem eru margfalt stærri en þau sem nú sigla til Íslands. Þessi draumur mun tæpast rætast í náinni framtíð og því er hugmyndavinna í gangi að annarri nálgun. Hugmyndin gengur út á að núverandi höfn verði stækkuð til austurs og að hluta til inn í landið. Breytingin getur gefið álíka lengd viðlegukanta fyrir fragtskip eins og eru í Sundahöfn fyrir margfalt minni kostnað en langstærsti draumurinn til þessa. Uppland hafnarinnar, sem er gríðar stórt, gefur mikla möguleika.

Bæjarstjórnarfundur októbermánaðar var haldinn í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi (LBHÍ). Ljóst er að þrengt er að skólanum úr ýmsum áttum, augljóst er hverjum þeim sem kemur að Reykjum að skólinn er í svelti. Sunnlendingar verða með öllum ráðum að standa vörð um skólann á þessum stað og það merka starf sem þar er unnið.

Það er margt annað spennandi að gerast í Ölfusi sem vonandi er hægt gera grein fyrir í öðrum pistli.

Guðmundur Oddgeirsson
bæjarfulltrúi framboðs félagshyggjufólks í Ölfusi.