Júlí Heiðar með lag í undankeppni Eurovision 2016

Júlí Heiðar EurovisionÖlfusingar munu eiga öflugan fulltrúa í undankeppni Eurovision á næsta ári. Sá fulltrúi er engin annar en Júlí Heiðar Halldórsson en lag hans Spring yfir heiminn hefur verið falið til að taka þátt í keppninni. Júlí Heiðar samdi lagið og hann ásamt Guðmundi Snorra sömdu texta við lagið.

Þórdís Birna og Guðmundur Snorri munu flytja lagið og mun Júlí Heiðar vera í bakröddum og á píanói. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Júlí Heiðar sendir inn lag í keppnina en hann er mikill áhugamaður um keppnina og er því einn af hans draumum að rætast.

„Finnst þetta skemmtileg keppni og góð leið til að bera jafnréttis- og friðarboðskap út í heiminn og að mörgu leyti að láta gott af sér leiða“ sagði Júlí Heiðar í samtali við Hafnarfréttir.

„Fólk virðist alltaf tengja nafn mitt við framhaldsskólagrínlag sem eg samdi ekki sjálfur en núna fær fólk að kynnast minni hugsun gagnvart tónlist og mér sem listamanni.“

Við hjá Hafnarfréttum óskum Júlí Heiðari innilega til hamingju með þetta og hlökkum við til að fá að heyra lagið í vor.