Engin ákvörðun hefur verið tekin um urðunarstöð á Nessandi

UrðunarstöðSveitarfélagið Ölfus fékk í lok nóvember fyrirspurn frá Sorpstöð Suðurlands og Sorpu um svæði fyrir sorpurðun á Nessandi. Samþykkti bæjarstjórn að farið yrði í rannsóknir á svæðinu en engin leyfi hafa verið veitt og engin formlega ákvörðun hefur verið tekin um urðunarstöð á þessu svæði

Fyrirspurnir sem þessar hafa borist sveitarfélaginu reglulega á seinustu árum. Sú fyrirspurn sem barst nú var frábrugðin þeim fyrri að því leyti að nú var einungis verið að leita eftir svæði til að urða óvirkan úrgang en óvirkur úrgangur er úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega og hefur ekki skaðleg áhrif á umhverfið, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur.

Hingað til hefur bæjarstjórn alltaf tekið neikvætt í þessi erindi en sú forsendu breyting að urða eigi einungis óvirkan úrgang varð til þess að bæjarstjórn er tilbúin að skoða málið nánar. Í bókun bæjarstjórnar kom fram að „ef tryggt er að ekki verði um skoðun á urðun annarra úrgangstegunda að ræða sér bæjarstjórn ekki meinbugi á því að farið verði í rannsóknir í samræmi við erindið.“

Ef af þessari urðurnarstöð verður þá er staðsetningin í um 6 km frá Strandarkirkju og um 9 km vestan við Þorlákshöfn. Til samanburðar þá er urðunarstaðurinn í Álfsnesi í um 2 km. fjarlægð frá byggðinni í Mosfellsbæ, í um 4 km. fjarlægð frá byggðinni í Grafarvogi og í um 6 km. fjarlægð frá Sundahöfn.

Bæjarstjórn hefur því samþykkt frumathugun á því hvort það svæði sem um ræðir sé fýsilegt til urðurnar á óvirkum úrgangi. Hvorki áætlanir né áform munu líta daginn ljós fyrr en niðurstaða rannsókna liggur fyrir.

Morgunblaðið birti frétt um málið þann 23. desember sl. en sú frétt var villandi hvað varðar staðsetningu, áætlanir og næstu skref.