Margir hafa áhuga á að nýta „Rásarhúsið“

ras01Nýverið festi sveitarfélagið kaupa á Rásarhúsinu nánar tiltekið Selvogsbraut 4.

Samkvæmt bókun bæjarráðs, frá 14. janúar sl., þá er ætlunin að „leita eftir áhugaverðri starfsemi í húsið sem ætlað er að styðja við atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu og þá sér í lagi á sviði þjónustu við ferðamenn.“

Nú þegar hafa aðilar sýnt því áhuga á að nýta húsnæðið en á seinasta bæjarstjórnarfundi voru tvö erindi tengd húsnæðinu. Fyrra erindið var frá Leikfélagið Ölfuss þar sem óskað var eftir að fá aðstöðu í húsnæðinu undir starfsemi félagsins. Síðara erindið var frá Kvenfélagi Þorlákshafnar þar sem lagt var til að húsnæðið yrði gert að menningarhúsi félagasamtaka í sveitarfélaginu.

Báðar beiðninar fengu sama svar en í bókun bæjarstjórnar kemur fram að á næstunni verði „lögð vinna í það að skilgreina framtíðarhlutverk hússins að Selvogsbraut 4. Áður en sú skilgreining liggur fyrir verður ekki hægt að taka afstöðu til beiðna sem berast um aðstöðu í húsinu“.