Styrmir flaug yfir 2 metra og Þór fékk 12 verðlaun

styrmir01
Mynd: Marta María

Þórsarar sópuðu að sér verðlaunum á Stórmóti ÍR í frjálsum sem fram fór um helgina í Laugardalshöll. Þórsarar fengu 12 verðlaun og Styrmir Dan Steinunnarson bætti eigið met í hástökki þegar hann sveif hátt yfir 2,0 metra. EM lágmarkið fyrir 17 ára og yngri er 2,02 og gæti hann náð því um næstu helgi.

Tuttugasta Stórmót ÍR fór fram um helgina og var keppt í öllum aldursflokkum en 10 ára og yngri kepptu í þrautarbraut þar sem gleðin er í fyrirrúmi og allir fá svo verðlaun að lokinni keppni. Unnur Rós Ármannsdóttir var eini keppandi Þórs í þrautarbrautinni að þessu sinni og stóð hún sig frábærlega.

Eins og fyrr segir náðu Þórsarar í 12 verðlaun: 6 gull, 3 silfur og 3 brons og einnig náðust 11 persónulegar bætingar hjá okkar fólki.

  • Katrín Ósk Þrastardóttir varð í 3.sæti í Langstökki
  • Hildur Björg Gunnsteinsdóttir varð í 3.sæti í kúluvarpi
  • Bjarki Óskarsson varð í 3.sæti í stangarstökki
  • Solveig Þóra Þorsteinsdottir varð í 2.sæti í langstökki
  • Marta María Bozovic varð í 2.sæti í stangarstökki
  • Bríet Anna Heiðarsdóttir varð í 2.sæti í kúluvarpi
  • Auður Helga Halldórsdóttir varð í 1.sæti í langstökki og
    hástökki 11 ára stúlkna
  • Styrmir Dan Steinunnarson var í hrikalegu formi um helgina og minnti
    svo sannarlega á sig. Hann sigraði í 4 greinum og setti 2 Mótsmet.
    – 1.sæti í 60m grindarhlaup 8,61sek og mótsmet
    – 1.sæti í hástökki 2,00m og mótsmet
    – 1.sæti í stangarstökki 3,10m
    – 1.sæti í langstökki 6,29m

Með stökki Styrmis á hástökkinu kom hann sér upp í 16.-20. sæti á afrekaskrá frjálsíþróttasambandsins.Einungis 15 Íslendingar hafa stokkið hærra en hann í hástökki innanhúss í sögunni og er hann annar Íslendingurinn til að koma sér yfir 2,00m í 16-17 ára aldursflokki en það er sjálfur Íslandsmethafinn Einar Karl Hjartarson (2,28m) en hann stökk 2,12m þegar hann var 17 ára og er það Íslandsmetið í 16-17 ára flokki. Styrmir er 1,76m á hæð sem þýðir að hann er að stökkva 24cm yfir eigin hæð.

EM 16-17 ára fer fram í Tbilisi Georgíu 14.-17. júlí. EAA lágmark skapar þátttökuheimild og er lágmarkið 2,02m. Styrmir reyndi við 2,03m á stórmótinu og rétt felldi þá hæð þannig að nú verður stefnt á að reyna við lágmark á næstu mótum en hann hefur tíma til 4. júlí 2016 til að ná því.

Styrmir verður í eldlínunni um næstu helgi þegar hann keppir á MÍ í fjölþrautum í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Hástökkið er fjórða og síðasta keppnisgreinin á fyrri keppnisdegi í þrautinni og hvetjum við Þorlákshafnarbúa til að fjölmenna á laugardaginn næsta og hjálpa Styrmi að reyna við EM-lágmark í hástökki 17 ára og yngri.