Tók þátt í undirbúningi á stærstu unglingaskemmtun landsins

Óskar RybinskiÞorlákshafnarbúinn Óskar Rybinski tók þátt í undirbúningi á stærstu unglingaskemmtun landsins, SamFestinginum, sem fór fram um seinustu helgi.

Í ár bauð Samfés áhugasömum unglingum tækifæri á að fylgjast með, læra og aðstoða sérfræðinga tæknimála við undirbúning SamFestingsins og var Óskar valinn til að taka þátt í því verkefni. Fékk hann því að aðstoða sérfræðinga frá Exton við allt það sem þarf að gera fyrir svona stóran viðburð.

Óskar, sem er fastagestur í Félagsmiðstöðinni Svítunni, mætti til vinnu með Exton seinasta fimmtudagskvöld þar sem farið var yfir skipulagið. Það er margt sem þarf að gera fyrir svona stóran viðburð og unnu menn fram á nótt þennan dag og voru mættir snemma til vinnu á föstudagsmorgun.

„Ég var að aðstoða við að setja hátalarana upp og tengja þá, setja upp grindur í salnum fyrir framan sviðið og tækin og margt fleira“ sagði Óskar í samtali við Hafnarfréttir.

Þegar hann var spurður hvort hann sæi fyrir sér að starfa við þetta í framtíðinni þá sagðist hann ekki vera viss um það en að þetta hafi verið „ótrúlega skemmtilegt og að hann væri mikið til í að fá að aðstoða við þetta aftur á næsta ári.“

SamFestingurinn er árlegur viðburður á vegum Samfés sem eru samtök félagsmiðstöðvar á Íslandi. Byrjaði helgin á balli sem haldið var í Laugardalshöll á föstudagskvöldinu og á það mættu á fimmta þúsund unglingar. Daginn eftir var svo söngkeppni Samfés sem sýnd var á RÚV á laugardeginum.