Elfar Bragason ráðinn yfirþjálfari yngri flokka Ægis

elfar01Barna- og unglingaráð Ægis hefur samið við Elfar Bragason um að taka að sér yfirþjálfarastöðu allra yngri flokka Ægis auk þess sem hann mun þjálfa 6. og 7. flokk félagsins.

Elfar er uppalinn Þorlákshafnarbúi en hann hefur verið búsettur í Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni síðustu þrjú ár.

Hann er menntaður knattspyrnuþjálfari og er með UEFA B gráðu sem gefur honum réttindi til að þjálfa alla flokka og deildir nema efstu deild í Evrópu.

Elfar hefur spilað fótbolta allt sitt líf og byrjaði ungur að árum hjá Ægi en færði sig um tíma yfir í Val. Hann fluttist ungur til Svíþjóðar og spilaði þar í nokkur ár auk þess að spila víða í Evrópu. Hann kom síðan aftur til Íslands árið 2010 og spilaði með Ægismönnum. Þá hefur hann spilað með Magna á Grenivík og var þar einnig yfirþjálfari yngri flokka.

Síðustu þrjú ár hefur Elfar spilað með Säters IF í Svíþjóð og var hann spilandi þjálfari liðsins árið 2014.