Fjölmenni á samstöðufundi í Þorlákshöfn

14795729_10209634475131399_602199937_oFlestar starfskonur Sveitarfélagsins Ölfus gengu út kl. 14:38 í gær með stuðningi bæjarstjóra Ölfuss, Gunnsteins R. Ómarssonar og fóru í samstöðugöngu um Þorlákshöfn.

Vel á annað hundrað einstaklingar gengu létta gönu um bæinn með viðkomu í Skrúðgarðinum sem er fallegur minnisvarði um verk kvenna í Þorlákshöfn en það var Kvenfélag Þorlákshafnar sem byggði garðinn og gaf sveitarfélaginu á sínum tíma.

Með þessum mótmæltu konur í Ölfusi harðlega kynbundnum launamun kynjanna á Íslandi og kölluðu eftir því að leiðrétting hans verði fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Einnig minntust þær með virðingu Kvennafrídagsins 24. október 1975, þegar tugþúsundir íslenskra kvenna lögðu niður störf heilan dag.

Er þetta í fyrsta skipti sem slíkur viðburður er haldinn í Þorlákshöfn en að sögn skipuleggjenda heppnaðist þetta virkilega vel og er stefnan að gera enn meira úr deginum að ári liðnu.

Mjög góð stemning myndaðist á meðal viðstaddra eins og sjá má á meðfylgjandi myndum en myndirnar tók Sigþrúður Harðardóttir.