Tvíburabræðurnir Helgi og Siggi samstíga hjá FSu

helgiogsiggiTvíburabræðurnir, Helgi og Sigurður Jónssynir, úr Þorlákshöfn hafa byrjað körfuboltatímabilið vel með FSu í 1. deildinni í vetur. Þessir 17 ára piltar eru á venslasamningi við FSu frá Þór en þeir stunda nám við skólann og eru þar í körfuboltaakademíunni.

Tölfræði bræðranna vakti athygli blaðamanns Hafnarfrétta þegar hann fletti þeim upp á vef KKÍ. Það er ekki nóg með að þeir séu ótrúlega líkir í útliti þá eru tölfræðiþættir þeirra næstum eins. Báðir hafa þeir skorað 6 stig að meðaltali í leik eftir fjóra leiki í deildinni og eru báðir með 2,5 fráköst að meðaltali.

Tveir aðrir Þorlákshafnarbúar leika með FSu í 1. deildinni í vetur. Jón Jökull Þráinsson skipti frá Þór yfir í FSu í haust og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson er á venslasamningi eins og tvíburarnir en það þýðir að þeir eru einnig gjaldgengir til að leika með Þórsurum.