Emil: „Þurfum sjötta manninn okkar aftur!“ – Úrslitakeppnin hefst í kvöld

Þórsarar sækja Grindvíkinga heim í kvöld í fyrsta leiknum í 8-liða úrslitum Domino’s deildarinnar í körfubolta.

Þar sem Grindavík hafnaði í 4. sæti deildarkeppninnar þá eiga þeir heimavallarréttinn í einvíginu en Þórsarar enduðu í 5. sæti.

Hafnarfréttir heyrðu í Emil Karel fyrirliða Þórs en hann vonast eftir góðri mætingu í kvöld. „Ég hvet alla til að mæta í kvöld og öskra okkur áfram,“ segir Emil sem er klár í slaginn framundan.

Græni drekinn hefur haft frekar hljótt um sig í vetur og vill Emil sjá hann fjölmenna til Grindavíkur í kvöld. „Við þurfum sjötta manninn okkar aftur ef við ætlum okkur langt!,“ segir Emil en Græni drekinn hefur margsannað gildi sitt sem sjötti maður Þórs þegar hann er í stúkunni að styðja sína menn.

Leikurinn hefst kl. 19:15 og ættu allir sem vettlingi geta valdið að skjótast til Grindavíkur og styðja Þórsara í kvöld.

Hér að neðan má sjá leikdagana í 8-liða úrslitum Þórs og Grindavíkur.

1. leikur – Fimmtudaginn 16. mars kl. 19:15 í Grindavík
2. leikur – Sunnudaginn 19. mars kl. 19:15 í Þorlákshöfn
3. leikur – Miðvikudaginn 22. mars kl. 19:15 í Grindavík
4. leikur (ef þarf) – Föstudaginn 24. mars kl. 19:15 í Þorlákshöfn
5. leikur (ef þarf) – Sunnudaginn 26. mars kl. 19:15 í Grindavík