Digiqole ad

Lýsi mun flytja fiskþurrkun sína út fyrir bæinn

 Lýsi mun flytja fiskþurrkun sína út fyrir bæinn

Lýsi hf. hefur tekið ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag um fiskþurrkunarstarfsemi í Þorlákshöfn og mun fyrirtækið byggja nýja verksmiðju á lóð sem sveitarfélagið hefur skipulagt vestan við Þorlákshöfn.

Þessi ákvörðun fyrirtækisins er tekin vegna samnings sem gerður var milli fyrirtækisins og sveitarfélagsins seinasta haust en í honum kom fram að fyrirtækið þyrfti að taka ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag fyrirtækisins fyrir lok mars 2017. Ef sú ákvörðun myndi ekki liggja fyrir þyrfti fyrirtækið að loka verksmiðju sinni í maí sama ár. Hins vegar kom fram í samningnum að fyrirtækið myndi fá frest til júní 2018 með að loka verksmiðjunni í Þorlákshöfn ef tekin yrði ákvörðun um að flytja starfsemina vestur fyrir bæinn.

Samkvæmt Katrínu Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, mun fyrirtækið hefja undirbúning við hönnun og teikningar á næstunni en að svo stöddu getur hún ekki sagt til um hvenær framkvæmdir hefjast þar sem það veltur á tímalengd hönnunarferilsins.

Fiskþurrkun Lýsi hf. verður því á sama stað þar til í júní 2018. Á þeim tíma hefur verksmiðjan þó einungis leyfi til að framleiða úr 40 tonnum af hráefni á sólarhring og mun hún vera lokuð í júlí og ágúst.