Ægir sló út 1. deildarlið Þórs í bikarnum

Þorkell skaut Ægismönnum í 16-liða úrslit bikarsins. Mynd: Sunnlenska.is / Guðmundur Karl

Ægismenn gerðu frábæra ferð norður á Akureyri þegar liðið sló út Þór Akureyri í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta í kvöld.

Fyrir leik gerðu flestir ráð fyrir sigri heimamanna í Þór þar sem þeir leika í næstefstu deild en Ægismenn í 3. deild. Þorlákshafnardrengirnir voru greinilega lítið að spá í þessu og komu feikna sterkir til leiks en eins og segir í umfjöllun Fótbolta.net um leikinn þá voru Þórsarar í stökustu vandræðum með sprækt lið Ægis.

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og þá var heldur ekkert skorað í framlengingu. Kalla þurfti til vítaspyrnukeppni til að skera úr um hvort liðið færi í 16-liða úrslitin.

David Sinclair skoraði fyrsta mark Ægis í vítaspyrnukeppninni. Næstur á punktinn var Aco Pandurevic og skoraði hann sömuleiðis. Jonathan Hood skoraði úr þriðju spyrnu Ægismanna og Gunnar Bent Helgason bætti við fjórða markinu.

Leikmaður Þórs klúðrar fjórðu spyrnu síns liðs og var það þá í höndum Þorkels Þráinssonar að skjóta Ægismönnum í 16-liða úrslit sem og hann gerði og sögulegur sigur Ægis í höfn.

Frábær árangur hjá okkar mönnum!