Fyrstu tónleikar LÞ og Stebba Jak í kvöld: Örfáir miðar eftir

Í kvöld mun Lúðrasveit Þorlákshafnar stíga á stokk í Ráðhúsi Ölfuss ásamt hinum magnaða söngvara Stefáni Jakobssyni oft kenndan við hljómsveitina Dimmu.

Lúðrasveitin og Stefán munu flytja lög Magnúsar Þórs Sigmundssonar en í hans safni er gríðarlegt magn frábærra laga. Lögin sem áheyrendur eiga von á að heyra eru meðal annarra Jörðin sem ég ann, Álfar, Ísland er land þitt, Þú átt mig ein, Ást, Freyja og svo mætti lengi telja. Magnús Þór mun sjálfur vera í hlutverki kynnis og segja áheyrendum sögur af lögunum og ferli sínum.

Tónleikarnir í kvöld eru þeir fyrstu af þremur en á morgun, föstudaginn 19. maí, verða tónleikar á Hótel Örk í Hveragerði og síðustu tónleikarnir verða í Gamla bíói á sunnudaginn.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og eru örfáir miðar eftir á tónleikana í kvöld en hægt er að kaupa miða í Kompunni. Hægt er að kaupa miða á tónleikana í Hótel Örk og í Gamla bíói á miði.is.

Þetta verða tónleikar sem enginn ætti að missa af!