Adam Eiður til liðs við Þór – Magnús Breki framlengir til tveggja ára

Þórsarar halda áfram að styrkja sig fyrir komandi tímabil en í gær framlengdi Magnús Breki Þórðarson samningi sínum og einnig skrifaði Adam Eiður Ásgeirsson undir hjá félaginu.

Magnús Breki framlengdi og gildir samningur hans til tveggja ára. Þetta eru afar góðar fréttir enda Magnús Breki, sem er 19 ára, í hópi efnilegra leikmanna félagsins en þetta verður þriðji vetur hans í meistaraflokknum. Magnús gerði 2,3 stig á rúmum 6 mínútum að meðaltali á síðasta tímabili í 10 leikjum, en hann lék hluta vetrar á venslasamning með Vestra á Ísafirði. Hann kom reynslunni ríkari heim og hefur verið duglegur í sumar.

Adam Eiður Ásgeirsson hefur jafnframt samið við Þór um að leika með liðinu í vetur. Þetta eru heldur óvæntar fréttir þar sem að Adam Eiður, sem er alinn upp hjá Njarðvík, gekk í vor til liðs við Hött á Egilsstöðum. Af persónulegum ástæðum varð ekki úr því að Adam yrði fyrir austan í vetur og hann hafði samband við þjálfarateymi okkar sem tóku vel í beiðni Adams um að taka slaginn með okkur í vetur.

Adam Eiður er 19 ára og 190 cm skotbakvörður sem hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og hann var í 14 manna æfingahóp U20 í sumar, áður en 12 manna hópurinn sem fór til Grikklands var valinn. Sumarið 2016 var hann í U18 ára landsliðinu sem varð Norðurlandameistari en þar var hann samherji Magnúsar Breka. Adam gerði 9,8 stig, tók 2,4 fráköst og gaf 1,6 stoðsendingu í Evrópukeppninni og skaut 44% fyrir utan 3ja stiga línuna. Á síðasta tímabili lék hann 19 leiki fyrir UMFN og gerði 3,6 stig og tók að auki 1,8 fráköst á tæpum 12 mínútum í leik.