Kærkominn sigur Þórsara

Þórsarar unnu langþráðan sigur í Domino’s deildinni í körfubolta í kvöld þegar þeir unnu Valsara 78-68 í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Þórsarar sigu framúr í öðrum og leiddu 37-29 í hálfleik. Valur byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og komust yfir 39-41 eftir rúmar tvær mínútur í þriðja leikhluta. Þórsarar komust fljótt aftur inn í leikinn og voru sterkari það sem lifði leiks og unnu að lokum sanngjarnan sigur.

Virkilega sterkur sigur Þórsara og sérstaklega í ljósi þess að liðið tók 43 þriggja stiga skot í leiknum en skoraði aðeins úr 11 þeirra en vinnur samt sigur á sprækum Valsmönnum.

DJ Balentine var flottur í liði Þórs og skoraði hann 23 stig og gaf 4 stoðsendingar. Ólafur Helgi skoraði 15 sitg og næstir komu Davíð Arnar og Emil Karel með 14 stig en Davíð setti niður þrjá risa stórar þriggja stiga körfur.