Eitt ár frá fyrstu komu Mykines

Í dag er eitt ár síðan vöruflutningaferjan Mykines kom fyrst til Þorlákshafnar en ferjan býður upp á beinar siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam.

Þessi nýja siglingaleið hefur aukið samkeppni í innflutningi til muna og hefur markaðurinn tekið virkilega vel í þessa viðbót að sögn Lindu Gunnlaugsdóttur framkvæmdastjóra Smyril Line Cargo.

Á þessu fyrsta ári hafa ekki komið upp alvarleg vandræði varðandi flutningarnar og virðist höfnin vel í stakk búin til að þjónusta þetta öfluga skip. Koma Mykines til Þorlákshafnar hefur haft jákvæð áhrif á byggðarlagið og má gera ráð fyrir að áhrifin eigi eftir að vera enn meiri þegar fram líða stundir.