Digiqole ad

Kvöldstund með Eyfa – Ný viðburðaröð að hefjast á Hendur í höfn

 Kvöldstund með Eyfa – Ný viðburðaröð að hefjast á Hendur í höfn

Föstudagskvöldið næst komandi kemur Eyjólfur Kristjánsson fram á Hendur í höfn og er það fyrsti viðburðurinn af fjórum sem verða þetta haustið á Hendur í höfn.

„Eftir mikla velgengni sumartónleikarraðarinnar var ekki annað hægt en að halda áfram á sömu braut,” sagði Ása Berglind viðburðarhaldari á Hendur í höfn. „Það var algjörlega frábært að sjá hversu vel fólk mætti og svo langt fram úr væntingum mínum, við erum að tala um að það var uppselt á fimm af sex tónleikum!”

„Í þessari viðburðarröð sem er að fara af stað á föstudaginn lagði ég upp með það að hafa fjölbreytta viðburði þar sem flestir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi” segir Ása.

„Fyrst er það Kvöldstund með Eyfa þar sem söngvarinn ástsæli fer yfir 30 ára feril í tali og tónum. Söngdívan Jóhanna Guðrún kemur fram föstudaginn 19. október og ætlar að flytja sín uppáhaldslög frá þeim 19 árum sem hún hefur starfað sem söngkona, sem er í raun ótrúlegt, en eins og flestir vita varð hún ung mikil barnastjarna og hennar frægðarljómi hefur bara haldið áfram að rísa þessi 19 ár, enda fullkomlega verðskuldað!“

Þá er komið að heimamanninum Jónasi Sig sem verður með tvenna tónleika 6. og 7. nóvember ásamt hljómsveit sinni. Uppselt er á tónleikana 7. nóv og aðeins örfáir miðar eftir þann 6. nóv.
„Þessir tónleikar eru þeir fyrstu í röð margra tónleika í nóvember og desember sem Jónas heldur í tilefni útgáfu nýrrar plötu og haldið ykkur fast, einnig nýrrar bókar! Bókin mun innihalda textana við lögin á nýju plötunni, Milda hjartað, ásamt hugleiðingum Jónasar sem geta jú farið út í geim og til baka, eins og þeir vita sem hann þekkja“ segir Ása og hlær.

Að lokum mun uppistandarinn, sjónvarps- og útvarpsmaðurinn Sólmundur Hólm kítla hláturtaugar viðstaddra eins og honum einum er lagið laugardaginn 10. nóvember.

„Mig langar að þakka Þorlákshafnarbúum og öllum þeim sem komu í sumar fyrir frábærar viðtökur. Þetta er nefninlega svo mikið lykilatriði, að fólk mæti. Annars er enginn grundvöllur til að byggja svona viðburði á. Á meðan tónleikagestir mæta, þá er víst að tónlistarfólkið/uppistandarar halda líka áfram að koma.”

Þess má einnig geta að nú stendur yfir undirbúningur fyrir aðventuna á Hendur í höfn. Dagný er að vinna að jólamatseðli ásamt sínum frábæru kokkum og einnig verða spennandi jólatónleikar svo fylgist með. Það er nokkuð víst að Þorlákshafnabúar þurfa ekki að leita langt yfir skammt til þess að fá jólastemningu eins og hún gerist best.