Sönghópur átta kvenna með frábæra útgáfu af lagi Jónasar

Lagið Hafið er svart eftir Jónas Sigurðsson kom út á plötunni Þar sem himin ber við haf árið 2012, en platan var tekin upp í samvinnu við Lúðrasveit Þorlákshafnar og Tóna og Trix.

Núna hefur tónlistarkennarinn Stefán Þorleifsson, sem er eins og flestir vita uppalinn Þorlákshafnarbúi, spreytt sig á laginu og útsett það fyrir lítinn sönghóp.

Sönghópurinn er skipaður átta góðum vinkonum Stefáns. Þær eru Bryndís Erlingsdóttir, Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, Hlíf Böðvarsdóttir, Auður Kristjánsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Auður Örlygsdóttir, Svanhildur Arna Óskarsdóttir og Halla Einarsdóttir.

Stefán deildi laginu á Facebook í gær og skrifaði þar eftirfarandi. „Jónas á þessa perlu sem ég fékk góðar vinkonur mínar til að syngja. Þær mættu í stofuna heima og sungu eins og englar, svei mér ef þær eru ekki bara englar!“

Hér að neðan má heyra þessa frábæru útsetningu Stefáns á laginu Hafið er svart.

Upprunalegu útgáfu Jónasar og Lúðrasveitar Þorlákshafnar má heyra hér að neðan.