Fuglamergð á fótboltavelli

Undanfarna daga hafa hópar blesgæsa og helsingja haldið til á fótboltavellinum við Búðahverfið. Þessir gerðarlegu fuglar hafa hér viðkomu á leið sinni frá Bretlandseyjum til varpstöðvanna á Grænlandi. Það er tilkomumikil sjón að sjá fuglana koma fljúgandi í hundraðatali og setjast á völlinn til þess að bíta gras. Fjöldinn hefur verið svo mikill að stundum sést varla í grasið. Gera má ráð fyrir að gæsirnar staldri hér stutt við en fljúgi svo til Grænlands til að verpa.