Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss árið 2019 samþykkt

Í gær var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir Sveitarfélagið Ölfus.

Ráðgert er að rekstrartekjur verði 2.639.000 þús. kr. og rekstrargjöld: 2.400.839 þús. kr. Fjármagnsgjöld verði 101.325 þús. kr. Þannig verði rekstarniðurstaða jákvæð sem nemur 136.836 þús. kr. og veltufé frá rekstri verði 412.786 þús. kr. Fyrirhugað er að greiða langtímalán niður fyrir 128.110 þús. kr.

Áætlunin ber í alla staði með sér að Ölfus er í sókn enda hefur íbúum á árinu fjölgað verulega. Höfuðáhersla er því lögð á að mæta vaxandi eftirspurn eftir lóðum bæði undir íbúðarhúsnæði sem og atvinnuhúnæði. Til marks um það eru mest útgjöld áætluð til gatnagerðar, fráveitu og annarra slíkra uppbyggingaþátta. Áfram verður haldið að selja lóðir á kostnaðarverði.

Samhliða þessum mikilvægu þáttum er allra leiða leitað til að létta álögum á bæjarbúa og styðja við bakið á þeim. Þar ber hæst að fasteignaskattur er lækkaður úr 0,38% í 0,35% auk þess sem leikskólagjöld eru lækkuð og frístundastyrkur hækkaður um 100%.

Áfram verður haldið að bæta innviði. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging sérhæfðrar aðstöðu til iðkunar fimleika (fimleikahús) sem ráðgert er að haldið verði áfram með á fyrrihluta næsta árs.

Málefni eldri borgara eru meðal brýnustu verkefna næstu ára. Sérstaklega er áríðandi að kortleggja þarfir þess hóps á víðtækan máta svo sem hvað varðar húsnæðismál, hjúkrunarþörf, tómstundir, akstursþjónustu og fl. Í beinu framhaldi þarf svo að ráðast í framkvæmdir og innleiðingu á þjónustuþáttum. Meðal annars til að styðja við slíka stefnumótun er stefnt að því að ráða sérstakan deildarstjóra í málefnum aldraðra auk þess sem verja á fjármagni til hönnunar og áframhaldandi undirbúningi framkvæmda.

Þá er áfram stefnt að því að sækja fram á forsendum þeirra náttúrugæða sem sveitarfélagið býr yfir. Þannig á t.d. að ljúka hönnun á stækkun og endurbótum á höfninni auk þess verður áfram unnið að því að koma upp nýsköpunar og jarðhitagarði við Hellisheiðavirkjun í samstarfi við Orku náttúrunnar. Samhliða verður lögð áhersla á að skipuleggja lóðir fyrir atvinnurekstur og undirbúa framkvæmdir vegna þeirra.

Fjárhagsáætlunin nú ber það því með sér að trúin á framtíðina er rík og tækifæri til sóknar. Meðvituð um söguna er þó samhliða reynt af fremsta megni að taka mið af tvísýnum efnahagshorfum samhliða því sem ráðist er í stórar framkvæmdir, mikilvægu viðhaldi sinnt af einurð og brugðist við þeim mörgu áskorunum sem fylgir fjölgun íbúa og brýnni þörf á úrræðum fyrir barnafjölskyldur og eldri borgara.

Fjárhagsáætlun A hluta Ölfuss 2019:

Rekstrartekjur: 2.325.305 þús. kr.
Rekstrargjöld: 2.171.110 þús. kr.
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld): -74.124 þús. kr.
Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 80.071 þús. kr.
Veltufé frá rekstri: 269.577 þús. kr.
Fjárfesting : 215.020 þús. kr. nettó.
Afborganir langtímalána: 106.468 þús. kr.
Handbært fé í árslok: 65.339 þús. kr.

Fjárhagsáætlun B-hluta sjóða Ölfuss 2019:

Rekstarniðurstaða Hafnasjóðs: 54.019 þús. kr.
Rekstrarniðurstaða Fráveitu: 17.530 þús. kr.
Rekstarniðurstaða Félagslegra íbúða: -8.353 þús. kr.
Rekstrarniðurstaða Íbúða aldraðra: -7.389 þús. kr.
Rekstarniðurstaða Vatnsveitu: 8.958 þús. kr.
Rekstrarniðurstaða Uppgræðslusjóðs: -8.000 þús. kr.

Fjárhagsáætlun samstæðu A og B hluta Ölfuss 2019:

Rekstrartekjur: 2.639.000 þús. kr.
Rekstrargjöld: 2.400.839 þús. kr.
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld): -101.325 þús. kr.
Rekstarniðurstaða, jákvæð: 136.836 þús. kr.
Veltufé frá rekstri: 412.786 þús. kr.
Fjárfesting : 313.970 þús. kr.
Afborganir langtímalána: 128.110 þús. kr.
Handbært fé í árslok : 84.703 þús. kr.