Fulltrúar O-listans sátu hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar

Jón Páll, Þrúður og Guðmundur bæjarfulltrúar O-lista í Ölfusi.

Bæjarfulltrúar á O-lista í bæjarstjórn Ölfuss sátu hjá við afgreiðslu fjárhags- og framkvæmdaráætlun Ölfuss sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Ölfuss fyrir helgi.

Bæjarfulltrúum O-listans þykir alltof litlu fjármagni varið í áframhaldandi starf við uppbyggingu húsnæðismála eldri borgara. „Einnig er ekki gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun næsta árs að klára viðbyggingu við íþróttamiðstöðina í Þorlákshöfn,“ segir í bókun þeirra á bæjarstjórnarfundinum.

Fulltrúar O-listans lögðu fram tvær tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun sem báðar voru felldar með fjórum atkvæðum D-listans.

Tillaga 1: Bæjarfulltrúar á O-lista leggja til að fyrirhuguð fjárveiting til þess að klára viðbyggingu við íþróttamiðstöðina í Þorlákshöfn auk viðhalds á ytra byrði íþróttasalsins verði öll færð yfir á árið 2019 en henni ekki skipt á milli áranna 2019 og 2020 og stefnt verði á að taka fimleikasalinn í notkun í upphafi næsta skólaárs. Lántaka sem fyrirhuguð var á árinu 2020 vegna þessa verks færist yfir á árið 2019.

Tillaga 2: Bæjarfulltrúar á O-lista leggja til að upphæð sem áætlað er að verja í hönnun og undirbúning viðbyggingu við Egilsbraut 9 verði aukin úr 6 milljónum í 30 milljónir. Á yfirstandandi fjárhagsári voru 15 milljónir áætlaðar í þessa vinnu en sú fjárveiting hefur ekki verið nýtt nema að litlu leyti í undirbúningsvinnu og tillögu að viðbyggingu. Þessi viðbót verði fjármögnuð með lántöku ef þörf krefur.

„Fyrir liggur að meirihluti D-lista leggur ríka áherslu á bæði uppbyggingu í húsnæðismálum eldri borgara og framgang framkvæmdar við fimleikahús og tekur því undir með O-lista hvað varðar mikilvægi þeirra framkvæmdaþátt sem fólgin er í tillögu O-lista,“ segir í bókun D-lista. Þá bæta þau við að þau telji ekki svigrúm til að mæta tillögu O-lista þar sem í henni er fólgin skuldasöfnun umfram það sem stefnt er að.