Björgunarsveitin Mannbjörg vill árétta að misskilnings hefur gætt varðandi komandi flugeldasölu.

Eftir síðustu áramót kom upp sú hugmynd að farin væri önnur leið sem þó hefur áður verið farin, að Kiwanis tæki verkefnið alfarið að sér gegn því að Mannbjörg myndi aðstoða við söluna gegn því að fá styrk frá Kiwanismönnum sem hafa veit okkur dygga aðstoð í kringum flugeldasöluna undanfarin ár. Fyrir þessu eru margar ástæður sem eiga það allar sameiginlegt að vera ekki Landsbjörgu “að kenna”.

Sá misskilningur er hér með leiðréttur að björgunarsveitir Landsbjargar ráði ekki útsöluverði flugelda, því þau verð sem Landsbjörg gefur út eru eingöngu viðmiðunarverð og þær ástæður sem raktar eru í fyrri frétt Hafnarfrétta eru ekki ástæður þess að Mannbjörg tók ekki þátt í flugeldakaupum í gegnum Landsbjörgu í ár. Allur hagnaður sem til verður vegna flugeldasölu björgunarsveita verður eftir í viðkomandi björgunarsveitum.

Eftir sem áður viljum við hvetja almenning til þess að hugsa sig vel um hvar þeir kaupi flugelda því flugeldasala hefur lengi verið ein helsta og mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita Landsbjargar sem og annarra samtaka eins og íþróttafélaga. Án flugeldasölunnar gætu björgunarsveitir Landsbjargar ekki rekið sig í þeirri mynd sem þær eru í dag og því viljum við ekki kasta rýrð að nokkru leyti á flugeldasölur björgunarsveita Landsbjargar. Þetta nána samstarf okkar við Kiwanismenn hér í Þorlákshöfn hefur einfaldlega leitt af sér að skynsamlegt væri, þó ekki nema í tilraunaskyni, að leyfa Kiwanismönnum að taka verkefnið alfarið að sér.

Að lokum viljum við minna fólk á að fara varlega í kringum alla skotelda um hátíðirnar og gæta þess að ungmennin séu ekki að taka þá í sundur eða breyta að nokkru leyti þar sem það getur, og hefur, valdið alvarlegum slysum. Öryggisgleraugu eru ekki kjánaleg og ekki heldur heyrnarhlífar. Það er kjánalegt að slasa sig alvarlega á þann hátt að auðvelt hefði verið að komast hjá því.

Við óskum landsmönnum öllum góðra jóla og gleðilegs nýs árs á sama tíma og við þökkum fyrir það gamla og þann stuðning sem við höfum alltaf getað reitt okkur á. Við þurfum ykkar hjálp til að geta hjálpað.
Einnig óskum við samstarfsfélögum okkar í björgunarsveitum um land allt velgengni í komandi vertíð.

Takk fyrir stuðninginn.

Fyrir hönd björgunarsveitarinnar Mannbjargar
Ingimar Rafn Ágústsson