Gríðarlegur áhugi og komnir biðlistar

Gríðarlegur áhugi er á íbúðum í nýju fjölbýlishúsi sem fyrirtækið Pró hús mun byggja í Þorlákshöfn í ár. Hafnarfréttir fjölluðu um fyrirhugaðar framkvæmdir í seinustu viku og í byrjun vikunnar komu íbúðirnar á sölu hjá Fasteignasölu Suðurlands.

Samkvæmt Guðbjörgu Heimisdóttur fasteignasala hjá Fasteignasölu Suðurlands er búið að frátaka allar 15 íbúðirnar og margir komnir á biðlista. „Það er ánægjulegt að sjá hve mikill áhugi er á þessum íbúðum og það er greinilega mjög mikil þörf fyrir húsnæði af þessari stærðargráðu og í þessum verðflokki,“ sagði Guðbjörg í samtali við Hafnarfréttir.

Sá hópur sem hefur sett sig í samband við fasteignasöluna er mjög fjölbreyttur að sögn Guðbjargar. „Inn á milli eru vissulega einstaklingar sem eru einungis að fjárfesta til að jafnvel leigja út en þarna er einnig margt ungt fólk að kaupa sér í fyrsta skipti, heimafólk í bland við aðkomu fólk og einnig fólk sem vill minnka við sig.“

Um er að ræða nýjar tveggja herbergja íbúðir sem eru 53 fermetrar í fjölbýli við Sambyggð 14A í Þorlákshöfn. Íbúðirnar afhendast fullbúnar með öllum innréttingum og heimilis- og hreinlætistækjum. Áætlaður afhendingartími er í ágúst 2019 og kosta þær frá 14,6-14,9 milljónum króna.

Jón Valur Smárason eigandi fyrirtækisins var að vonum ánægður með þennan mikla áhuga þegar blaðamaður Hafnarfrétta hafði samband við hann. Jón Valur sagðist þó ekki vera hissa þar sem Þorlákshöfn er ekki í nema um 35 mínútna fjarlægð, þjónusta í sveitarfélaginu væri til fyrirmyndar og frábær íþróttamannvirki.

Aðspurður um hvort til stæði að fara í frekari framkvæmdir í Þorlákshöfn sagði hann svo vera. En fyrirtækið hefur nú þegar sent fyrirspurn á sveitarfélagið og óskað eftir 1-2 lóðum undir aðrar blokkir þar sem yrðu fjölbreyttari stærðir af íbúðum.