Leikskólagjöld í Ölfusi hafa lækkað á milli ára og engir biðlistar

Um áramótin voru leikskólagjöld lækkuð í Ölfusi en lækkunin var mismunandi eftir liðum og í dag kostar 8 tíma vistum á leikskóla með fæði 33.000 krónur. Á sama tíma er enginn biðlisti til staðar á leikskólanum.

ASÍ birti nýverið úttekt á leikskólagjöldum sveitarfélaga og þegar þær tölur eru bornar saman við gjöld í Ölfusi þá má sjá að einungis fimm sveitarfélög, af þeim 16 sem voru í úttektinni, eru með lægri gjöld.

Leikskólagjöld miðað við 8 tíma vistun eru áberandi lægst í Reykjavík eða 25.963 krónur á mánuði. Það er því 7.037 krónum ódýrara á mánuði að vera með barn í leikskóla í Reykjavík miðað við í Ölfusi. Ef við skoðum hins vegar 9 tíma vistun þá minnkar munurinn mikið og er slík vistun 2.744 krónum ódýrari á mánuði í Reykjavík en í Ölfusi.

Átta tíma leikskólavistun í Garðabæ kostar hins vegar 39.618 krónur á mánuði. Það er því 6.618 krónum ódýrara á mánuði að vera með barn í leikskóla í Ölfusi miðað við Garðabæ.

Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þá er leikskólinn Bergheimar í Ölfusi mjög vel mannaður en um 61% starfsfólks skólans er með leikskólakennaramenntun eða aðra uppeldismenntun. Einungis 15 sveitarfélög á landinu eru með hærra hlutfall fagmenntaðra í vinnu á sínum leikskólum.