Komnir áfram í lokahátíð Nótunnar

Hljómsveitin No Sleep. Mynd: TÁ

Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna á Íslandi og fer þannig fram að frambærileg atriði eru valin úr öllum tónlistarskólum sem vilja taka þátt og þau send á svæðistónleika Nótunnar sem eru haldnir í öllum landshlutum. Á svæðistónleikunum eru svo valin frambærilegustu atriðin og þau fá að koma fram á lokatónleikum Nótunnar sem að þessu sinni eru haldnir í Hofi á Akureyri.

Þröstur Ægir Þorsteinsson og Jakob Unnar Sigurðarson.

Að þessu sinni á Þorlákshöfn mjög frambærilega fulltrúa í lokakeppni Nótunnar en það eru þeir Þröstur Ægir Þorsteinsson og Jakob Unnar Sigurðarson sem munu koma fram ásamt hljómsveit sinni No Sleep. Við heyrðum í strákunum og spjölluðum við þá um tilurð hljómsveitarinnar, tilfinninguna sem fylgir því að vera að fara að spila í Hofi á Akureyri og framtíðarplön.

,,Hljómsveitin heitir sem sagt No Sleep, eða Andvaka á íslensku. Við höfðum verið að reyna að finna nafn á hljómsveitina án árangurs þar til að Þröstur mætti í peysu á eina æfinguna þar sem stóð á “no sleep” og þaðan kom nafnið. En við erum búnir að vera að spila núna í 2 ár og spilum alla tónlist, frá Steina Spil yfir í rokkið.”

Hverjir eru með ykkur í hljómsveitinni og á hvaða hljóðfæri spilið þið?
Þeir sem eru með okkur heita Valgarð Uni Arnarsson og Gylfi Þór Ósvaldsson og spila báðir á rafmagnsgítara. Þröstur spilar á trommur og Jakob á rafmagnsbassa.

Hvernig tilfinning að vera komnir í aðalkeppni Nótunnar?
Tilfinningin að vera komnir á nótuna er auðvitað geggjuð og við erum peppaðir í það að fara að fá að spila í Hofi, þessi litla hljómsveit.

Hvað svo? Þið ætlið væntanlega að vinna Nótuna og hvað er svo planið fyrir hljómsveitina?
Við stefnum auðvitað á það að vinna Nótuna en planið eftir það er bara að halda áfram á sömu braut og vonandi fáum við fleiri svona tækifæri svo kannski fleiri taki eftir okkur. Við erum að spila í ýmsum litlum verkefnum saman en förum kannski að stefna á frumraun okkar að semja okkar eigið lag.

Við í Hafnarfréttum óskum þeim öllum að sjálfsögðu til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þessum efnilegu tónlistarmönnum í framtíðinni.