Leikur 2: Þórsarar geta jafnað metin á heimavelli í kvöld

Nú er ekki spurning hvort heldur hvenær á að leggja af stað út í Icelandic Glacial höllina í Þorlákshöfn því í kvöld fer fram annar leikurinn í 8-liða úrslitunum á milli Þórs og Tindastóls.

Tindastóll vann fyrsta leikinn með naumindum á Sauðárkróki á föstudaginn en í kvöld mætast liðin í Þorlákshöfn og með sigri Þórs ná þeir að jafna einvígið. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í undanúrslit.

Baldur og lærisveinar hans ætla sér að sjálfsögðu að jafna metin í kvöld en til þess þarf góðan leik og mikinn stuðning úr stúkunni. „Við þurfum á ykkar stuðning að halda, vill sjá fulla stúku og stuðning allan tímann!“ segir Baldur Þór.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 en eina vitið er að mæta tímanlega því frá klukkan 18:15 verður hægt að fá sér grillaða hamborgara.