Tindastóll skellti í lás í Þorlákshöfn

Frábær stemning var í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í gær þegar Þórsarar tóku á móti Tindastólsmönnum í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla í körfubolta.

Skemmst er frá því að segja að gestirnir frá Sauðárkróki voru sterkari aðilinn í þessum leik og voru Þórsarar að elta allan leikinn.

Tindastóll spilaði mjög þéttan varnarleik og þá sérstaklega á Nikolas Tomsick sem fékk aldrei frið í leiknum. Þá voru Tindastólsmenn mun grimmari í frákastabaráttunni og tóku til að mynda 22 sóknarfráköst í leiknum gegn 10 sóknarfráköstum Þórsara.

Tindastóll vann að lokum 73-87 sigur og leiða einvígið 2-0. Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í undanúrslit og er því rimman alls ekki búin. Næsti leikur liðanna er á fimmtudaginn á Sauðárkróki en þar ætla Þórsarar sér ekkert annað en sigur.