Jóhanna sæmd silfurmerki ÍSÍ – Viðtal

,,Njótum lífsins, tökum þátt og verum virkir samfélagsþegnar“

Þau gleðitíðindi bárust frá ÍSÍ að Jóhanna M. Hjartardóttir, Þorlákshafnarbúi til margra ára og formaður körfuknattleiksdeildar Þórs í Þorlákshöfn, hafi verið sæmd silfurmerki Íþrótta- og ólympíusambands Íslands á ársþingi KKÍ á dögunum.

Eins og flestir sem hafa búið í Þorlákshöfn í einhvern tíma vita, þá hefur Jóhanna, og reyndar öll hennar fjölskylda, unnið ötullega að uppbyggingu íþróttastarfs í Þorlákshöfn. Jóhanna hefur um árabil verið lykilmanneskja í körfuknattleiksdeild Þórs og einnig komið víða við í störfum sínum innan íþróttahreyfingarinnar.

Jóhanna ásamt Hannesi Sigurbirni Jónssyni, formanni KKÍ, Hilmari Júlíussyni, Páli Kolbeinssyni og Hafsteini Pálssyni, stjórnarmanni hjá ÍSÍ. Mynd: Jónas Ottósson/KKÍ

Við ákváðum að nota þetta flotta tilefni til þess að spyrja Jóhönnu spjörunum úr! Um leið og við gefum Jóhönnu orðið langar okkur hjá Hafnarfréttum að óska henni innilega til hamingju með þessa viðurkenningu, Jóhanna er svo sannarlega vel að henni komin.

Til að byrja með, getur þú sagt aðeins frá þér, þínum bakgrunni, fjölskylduhögum og núverandi starfi?

Ég ólst upp í Hveragerði en hús fjölskyldunnar stóð fyrir ofan Sundlaugina Laugaskarði og höfðum við útsýni yfir Ölfusið. Fjölskylda mín starfaði við sundlaugina bæði við sundkennslu og afgreiðslu- og gæslustörf. Pabbi minn, Hjörtur Jóhannsson, var forstöðumaður laugarinnar í nærri 40 ár og starfaði móðir mín einnig við laugina. Fjölskyldan var á kafi í íþróttum og félagsmálum. Við systkinin fórum öll í íþróttakennaranám en þar kynntist ég manninum mínum, Ragnari Sigurðssyni og eigum við 3 syni, Hjört Sigurð, Baldur Þór og Þorstein Má. Ég starfaði fyrstu árin sem íþróttakennari við barna og gagnfræðaskólana á Selfossi og samhliða þjálfaði ég fimleika í Hveragerði og vatnsleikfimi víða um Suðurlandið með Ester systur minni. Árið 1989 vorum við Ragnar ráðin sem íþróttakennarar við grunnskólann í Þorlákshöfn og kenndi ég þar til vorsins 2008. Þá var ég ráðin í núverandi starf mitt sem menningar og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar.

Hver er þín fyrsta minning af íþróttaiðkun?

Ég var mikið í sundi frá því að ég var pínulítil en ég var orðin synd 3ja ára. Sundlaugin var leiksvæði okkar krakkanna og byrjaði ég snemma að æfa í sunddeild UFHÖ og toppaði á ferlinum þegar ég varð Íslandsmeistari 11 ára gömul. En þegar ég var 12 ára fór ég að æfa fimleika, handbolta o.fl. þegar nýtt íþróttahús opnaði í Hveragerði. Einnig fórum við krakkarnir mikið á skíði á veturna.

Nú hefur þú búið í fjöldamörg ár í Þorlákshöfn og hjálpað til við að byggja upp íþróttastarfið í bænum, getur þú lýst upplifun þinni af því að sjá íþróttalífið blómstra eins það hefur gert síðustu árin?

Það er alveg óhætt að segja að maður fyllist ákveðnu stolti þegar horft yfir þessi 30 ár. Þá er ég ekki bara að horfa á íþróttafólkið sem hefur átt sín spor í íþróttahúsinu heldur hvað umgjörðin utan um íþróttastarfið er orðin öflug. Fólkið í bænum okkar lætur sig varða hvað er um að vera í íþróttalífi bæjarins og eigum við mjög öfluga sjálfboðaliða sem vilja leggja sig fram við að bæta umgjörð íþróttadeildanna og taka þátt í starfinu. Störf okkar sem foreldra og sjálfboðaliða eru gríðarlega mikilvæg því að það er ekki sjálfgefið að ná þeim árangri sem við höfum náð í dag nema með mikilli vinnu, samstilltu átaki og sterkri umgjörð.

Hvaða máli skiptir það fyrir bæ eins og Þorlákshöfn að hafa öflugt íþróttalíf?

Það skiptir öllu máli. Íþrótta- og menningarlíf er næring hvers samfélags. Maðurinn er félagsvera og er því lykillinn að góðri heilsu að rækta líkama og sál. Gott aðgengi að öflugu menningarlífi og að taka þátt er það besta sem við getum gert fyrir sálartetrið okkar. Það má því segja að það fjármagn sem sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar leggja í slíkt starf skilar sér margfalt til baka í virkari og hamingjusamari borgurum.

Áttu uppáhalds minningu á sviði íþrótta í Þorlákshöfn?

Ég á margar uppáhalds minningar er tengjast íþróttum. Við Raggi höfum fylgt strákunum okkar eftir og stutt þá í gegnum súrt og sætt og eru margar góðar minningar tengdar þeim. Allir völdu þeir körfuboltann sem sína aðal íþróttagrein og náðu þeir flottum árangri þar og léku í yngri landsliðum. Ég held samt að mín uppáhalds minning sé þegar meistaraflokkslið okkar í körfubolta lék í úrslitum á Íslandsmótinu vorið 2012 og hampaði silfri. Þetta var magnaður árangur því liðið lék í 1. deild árið á undan. Í úrslitaeinvíginu voru um 1000 áhorfendur í íþróttahúsinu og við sem störfuðum í kringum liðið vorum að flytja vörubretti og stóla til að bæta við sætafjölda og koma öllum fyrir. Þetta var mögnuð upplifun og stórkostlegur árangur í okkar litla samfélagi.

Hvernig myndir þú vilja sjá íþróttalífið í Þorlákshöfn þróast á næstu árum?

Ég vil að sjálfsögðu sjá áframhaldandi uppbyggingu á íþróttamannvirkjum og að verði kláruð aðstaða fyrir fimleikadeildina okkar. Við erum með frábært starf í Umf. Þór fyrir krakkana en mér finnst við þurfum að styðja betur við afreksstarf eldri iðkenda því að þar eru fyrirmyndirnar. Ég vil sjá meiri stuðning og metnað til að taka skrefið og koma okkur á stall þeirra allra bestu í körfubolta. Við eigum frábærar fyrirmyndir í meistaraflokksliði okkar í körfubolta og erum við búin að vera á meðal 10 bestu liða landsins í körfubolta í 8 ár . Ég vil stefna á toppinn og festa okkur í sessi í topp 4 og berjast um titla.

Við, í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar, stefnum á að tefla fram meistaraflokksliði kvenna í körfubolta eftir 2 – 3 ár. Auðvitað er mikilvægt að samfélagið og sveitarfélagið hafi áhuga á að fylgja okkur í þeirri vegferð með myndarlegum stuðningi því að annars brennum við sjálfboðaliðarnir út. En við erum bjartsýn og hefur árangurinn endurspeglað það.

Eitthvað að lokum?

Þökkum fyrir lífið og tilveruna með því að njóta lífsins, taka þátt og vera virkir samfélagsþegnar. Það gefur lífinu lit og hamingju.