„Búbót fyrir fjölskyldur með ungbörn“

Sveitarfélagið Ölfus hefur nú tekið ákvörðun um að bæta þjónustu við foreldra með því að taka upp svokallaðar heimagreiðslur. Um er að ræða ákvörðun um að láta fjármagn fylgja barni fremur en hvaða þjónustu foreldrar velja. Þannig geti foreldrar sem velja að nýta ekki þjónustu dagforeldra fengið greidda þá upphæð sem annars færu til að niðurgreiða þjónustu dagmæðra.

Hægt er að sækja um greiðslu þegar fæðingarorlofi lýkur, það er frá 10 mánaða aldri barns á árinu 2020 og 12 mánaða aldri frá 1. janúar 2021. Greiðslurnar eru þær sömu og niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra eða 41.600 krónur en 48.000 fyrir einstæða foreldra og námsmenn.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að með þessu vonist sveitarfélagið til að við bætist enn eitt úrræðið fyrir foreldra ungra barna. „Tilgangurinn með greiðslum þessum er náttúrulega að fjölga valkostum foreldra og bæta við stuðningi fyrir foreldra sem leggja áherslu á að vera með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Þessir styrkir eru undanþegnir skatti og því um að ræða nokkra búbót fyrir fjölskyldur með ungbörn, en ég þekki það sjálfur að einmitt þá eru fjárráð oft hvað þrengst.“

Hann segir að með þessu sé engan vegin fyrirhugað að draga úr stuðning hvað varðar þjónustu dagmæðra. „Nei þvert á móti þá hefur sá stuðningur verið aukinn mikið og vonumst við til að geta haldið áfram að byggja upp þá mikilvægu þjónustu. Því til viðbótar höfum við svo einnig hafið undirbúning að stækkun leikskólans. Markmiðið er að Ölfus verði áfram örugg höfn barnafólks og þessar heimagreiðslur eru eitt púslið í þeirri mynd, og hrein viðbót.“

Hægt er að sækja um þennan stuðning á vefsíðu Sveitarfélagsins Ölfus í gegnum „íbúagáttina“ neðst á síðunni.