Secret Solstice í Ölfusi?

Secret Solstice í Laugardalnum

Samkvæmt visir.is segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, að áhugi væri fyrir því að halda tónlistarhátíðina Secret Solstice í sveitarfélaginu, ef leitað yrði til bæjarstjórnar með hugmyndir um slíkt. 

Mikil umræða hefur skapast síðustu daga um framtíð tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice sem haldin hefur verið í Laugardalnum í Reykjavík. Secret Solstice skuldar bæði umboðsaðila hljómsveitarinnar Slayer umtalsverðar fjárhæðir og Reykjavíkurborg 10 milljónir en Live Events, sem sjá nú um rekstur hátíðarinnar, segja að þessar skuldir tilheyri fyrri rekstraraðilum. Núverandi rekstraraðilar segja að hátíðin verði haldin óháð stuðningi Reykjavíkurborgar og að leitað verði til annara sveitafélaga ef þess þurfi.

Í samtali við visir.is sagði Elliði Vignisson:

„Þetta hefur ekki komið til okkar með formlegum hætti, en ég get staðfest að sveitarfélagið Ölfus  myndi sýna því áhuga ef til þeirra yrði leitað,“

Og þegar hann var spurður hvort leitað hefði verið til sveitarfélagsins með óformlegum hætti.

„Nei, ekki annað en það að auðvitað höfum við áhuga á því að styðja við menningu og listir. […] Það er alveg eins með Secret Solstice og önnur atvinnutækifæri eða tækifæri á sviði menningar og lista að við myndum skoða það með opnum huga.“