Friðrik Ingi tekur við Þórsurum: „Líklegast mistök að gefa það út að ég væri hættur“

Friðrik Ingi Rúnarsson var í dag ráðinn þjálfari meistaraflokks Þórs í körfubolta og skrifaði hann undir þriggja ára samning við félagið. Friðrik Ingi er reynslumikill þjálfari og hefur þjálfað í Njarðvík, KR, Grindavík og Keflavík og lyft Íslandsmeistaratitlinum þrisvar. Einnig hefur hann þjálfað yngri landslið og A landslið Íslands.

„Það er óhætt að segja að það sé mikil tilhlökkun í mér að fara að vinna með öllu því góða fólki sem starfar í kringum körfuboltann í Þorlákshöfn sem og bæjarbúum öllum, körfuboltinn er auðvitað að mörgu leyti ákveðið sameiningartákn bæjarfélagsins.“ sagði Friðrik Ingi í samtali við Hafnarfréttir.

„Ég komst að því á síðasta tímabili að það voru líklegast mistök að gefa það út að ég væri hættur, það er ekki svo auðvelt þegar á reynir og það hitti mig svo sannarlega fyrir og hér er ég staddur, á leiðinni út á gólf að gera það sem ég elska að gera, þjálfa og kenna körfubolta, gera leikmenn betri, innan sem utan vallar.“

„Það er frábært að fá Friðrik Inga í okkar raðir og er mikil tilhlökkun í herbúðum Þórs. Hann mun klárlega miðla af reynslu sinni til annarra þjálfara í Þór sem mun styrkja starf deildarinnar í heild sinni,“ sagði Jóhanna formaður deildarinnar.

Samhliða ráðningu Friðriks Inga var gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara hans en hann óskaði eftir að hafa Þorstein Má Ragnarsson sér við hlið. Þorsteinn hefur verið leikmaður Þórs frá unga aldri og í dag er hann yngri flokka þjálfari Þórs en hann lagði skóna á hilluna sem leikmaður eftir langvarandi meiðsli.