Þorpið þemadagar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn

Dagana 21. -23. maí verður Grunnskólanum í Þorlákshöfn breytt í fríríkið Þorpið þar sem nemendur munu ganga í öll störf þorpsbúa.

Í þorpinu eru starfrækt kaffihús, bakarí, sultugerð, tívolí, málmsmiðja, rammalistafyrirtæki, saumastofa, tölvuleikjastöð, trésmiðja, listasmiðja, nytjamarkaður, frístund, banki, dagblað og kökuskreytingafyrirtæki.

Nemendur sendu inn atvinnuumsóknir á dögunum og var úthlutað störfum eftir óskum. Allir fá greitt fyrir sín störf í gjaldmiðli fríríkisins, svonefndum þollara, sem síðan er hægt að nota til þess að kaupa ýmsan varning og góðgæti í Þorpinu. Þorpið verður opið fyrir gesti og gangandi, fimmtudaginn 23. maí á milli kl. 11-13. Þá gefst fólki kostur á að skipta íslenskum krónum í þollara og njóta alls þess sem Þorpið hefur upp á að bjóða.

Hvetjum við íbúa til að kíkja á opnun Þorpsins fimmtudaginn 23. maí.