Hendur í höfn hvetur fólk til aðgerða

Mánudaginn 27. maí, þegar þetta er skrifað, erum við á Hendur í höfn í Þorlákshöfn að nýta þennan sólríka dag til þess að bera á pallinn hjá okkur og koma sumarhúsgögnunum fyrir, enda sumarið framundan. Það er auðvitað tilefni til að gleðjast og leyfa sér að hlakka til allra sólríku daganna sem við fáum vonandi þetta sumarið. En á sama tíma ráðum við ekki við pirringinn og vonleysið sem hellist yfir okkur, því að á meðan sólin baðar okkur geislum sínum hellist yfir okkur viðbjóðslegur óþefur og mengun frá fyrirtæki hér í bæ. Ár eftir ár eftir ár hafa íbúar og fyrirtæki í Þorlákshöfn kvartað yfir þeim óviðunandi loftgæðum sem fyrirtækið spúir yfir íbúana og þeirri staðreynd að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands skuli ítrekað endurnýja starfleyfi þeirra. Þó má teljast víst að umrætt fyrirtæki er vel meðvitað um hvaða áhrif lyktarmengunin hefur á íbúa og í einhverjum tilfellum, eins og okkar, rekstur annarra fyrirtækja.

Nú stendur til að endurnýja starfsleyfi þessa fyrirtækis og er Heilbrigðiseftirlitið með málið til kynningar á heimasíðu sinni þar sem fólki gefst kostur á að senda inn athugasemdir. Þær má senda á hsl@hsl.is fyrir 6. júní nk. Þetta starfsleyfi er til hvorki meira né minna en 12 ára!

Við getum ekki með nokkru móti sætt okkur við það að geta ekki boðið gestum sem hingað koma að sitja úti þegar sólin skín og veðrið er þannig að vindurinn blæs ekki ýldulyktinni í burtu. Við getum með engu móti sætt okkur við það að vera með fullt hús af fólki og geta ekki hleypt fersku lofti inn með því að opna glugga, því þá gýs upp ýldulyktin sem fer ekki sérlega vel með því að njóta góðs matar. Við getum með engu móti sætt okkur við það að Heilbrigðiseftirlitið skuli veita fyrirtækjum sem hafa svona mengandi áhrif á umhverfið starfsleyfi aftur og aftur á kostnað lífsgæða íbúa og hagsmuna annarra fyrirtækja.

Við hvetjum öll þau sem láta sig málið varða að senda athugasemd á áðurnefnt netfang, hsl@hsl.is fyrir 6. júní. Það er eina leiðin til þess að hafa einhver áhrif á það hvort þetta umrædda fyrirtæki fái starfsleyfið endurnýjað, og í þetta sinn til 12 ára.

Sameinumst í þessu máli sem snertir alla bæjarbúa og orðspor Þorlákshafnar og losum okkur við þessa ýldulykt í eitt skipti fyrir öll.