Óskar þess að mannlíf og menning í Ölfusi megi blómstra um alla framtíð

Sigþrúður Harðardóttir, eða Sissa eins og hún er jafnan kölluð, er fyrsti Ölfusingur vikunnar í Hafnarfréttum. Um er að ræða nýjan lið sem við vonumst til að lesendur taki vel í og hafi gaman að. Sissa er í kvöld að fara af stað með námskeiðið íslenska 2, ætlað útlendingum sem vilja læra íslensku og sér í lagi þeim sem hafa lokið við íslenska 1 sem Sissa kenndi á haustönn. En nú er komið að því að gefa Sissu orðið, við þökkum henni fyrir að taka vel í bón okkar um að verða fyrsti Ölfusingur vikunnar.

Fullt nafn:
Sigþrúður Harðardóttir

Aldur:
55 ára

Fjölskylduhagir:
Gift Sigurði Erni Jakobssyni frá Akureyri og við eigum Ólöfu Björk 24 ára, Jakob Unnar 18 ára og Auði Magneu 14 ára.

Starf:
Grunnskólakennari

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Í rúm 30 ár, síðan haustið 1989.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Villibráð af öllu tagi.

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Sú bók sem ég hef lesið oftast á fullorðinsárum er Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Hún verður alltaf betri og betri og verður að teljat uppáhalds.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Lion King. Hef örugglega horft oftast á hana…eða Pretty Woman.

Hvað hlustar þú mest á?
Alls konar bækur á Storytel.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Ég verð að segja Þorlákshöfnin mín en Selvogurinn er líka í miklu uppáhaldi

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Finn mér skemmtilegt fólk til að tala við eða fer á mannamót; kóræfingu, tónleika eða körfuboltaleik.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Mamma mín, Ólöf Karlsdóttir.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
It’s raining men!

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Ég felldi tár þegar ég fékk börnin mín í fangið í fyrsta sinn og þau hafa margoft síðan kallað fram gleðitár með stórum og smáum sigrum í lífinu.

Hvað elskar þú við Ölfus?
Fólkið sem ég hef eignast þar að vinum fyrir lífstíð, vinnustaðinn minn sem er Grunnskólinn í Þorlákshöfn og náttúruna sem er svo fjölbreytt.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Hjúkrunarheimili og/eða bætta hjúkrunarþjónustu fyrir stækkandi hóp eldri borgara í sveitarfélaginu og ungbarnaleikskóla fyrir yngstu borgarana. Hvort tveggja mjög brýnt að mínu mati.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Þegar ég var lítil stelpa og fór á hestbak með pabba heima á Selfossi, bara við tvö. Það voru gæðastundir.

Hvert dreymir þig um að fara?
Til Asíu.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Ég reyni að koma vel fram við alla.

Hvað er framundan hjá þér?
Fyrir utan þetta hversdagslega að mæta í vinnu og sinna heimili og fjölskyldu þá ætlum við hjónin að skreppa til Tenerife í febrúar og Belgíu í júní og kolefnisjafna þær ferðir svo í sumar! Næsta haust ætla ég svo að gerast skólastúlka þar sem ég hef fengið launað námsleyfi og hlakka gríðarlega til að setjast á skólabekk í HÍ og læra meira um kennslu í fjölmenningarlegu samfélagi.

Eitthvað að lokum?
Ég óska þess að mannlíf og menning í Ölfusi megi blómstra um alla framtíð.