Lárus Jónsson tekur við Þórsurum

Körfuknattleiksdeild Þórs í Þorlákshöfn hefur samið við Lárus Jónsson um að taka við þjálfun meistaraflokks og yngri flokka deildarinnar en hann skrifaði undir samning til þriggja ára í dag.

„Mér líst rosalega vel á að taka við Þórsliðinu. Liðið er búið að vera stöðugt í efstu deild síðustu ár með góðan kjarna af heimastrákum og mikill metnaður í stjórn til þess að ná árangri. Með samstillu átaki bæjarbúa þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við getum búið til mjög skemmtilega stemmningu í körfuboltabænum Þorlákshöfn.“ Sagði Lárus í samtali við Hafnarfréttir.

Lárus er Rangæingur og hóf sinn körfuboltaferil með Hamri í Hveragerði. Sem leikmaður lék hann lengst af með Hamri en auk þess lék hann um tíma með KR, Njarðvík og Fjölni.

Sem þjálfari meistaraflokks hefur hann þjálfað Hamar, Breiðablik og síðast liðin tvö ár Þór Akureyri. Samhliða þjálfun meistaraflokks mun Lárus þjálfa unglingaflokk Þórs og vera yfirþjálfari yngri flokka.