Dansar í gegnum holt og hæðir

Tónlistarmaðurinn Tómas Jónsson er Ölfusingur vikunnar þessa vikuna en hann var að gefa út nýja plötu. Platan sem kom út á afmælisdegi Tómasar, 18. apríl, heitir „3“ og er önnur plata hans í væntanlegum þríleik og er platan 2 í undirbúning. Á henni eru níu instrúmental lög sem eru allt frá því að vera rólegt synthapopp, nýklassík og upp í harða elektró-industrial tónlist. Tómas hefur leikið með mikið af tónlistarfólki úr fremstu röð á Íslandi en hann var aðeins 15 ára gamall þegar hann var farinn að starfa við hljómborðsleik. Hann hefur ferðast um heiminn með tónlistarmönnum eins og Ásgeiri Trausta og Júníusi Meyvant auk þess að ferðast með sinni eigin hljómsveit AdHd. Þar fyrir utan kemur hann víða við í íslensku tónlistarlífi, svona þegar farsótt geisar ekki í heiminum. Í frétt Fréttablaðsins frá síðast liðinni helgi má lesa meira um tilurð plötunnar og hljómsveitina Tómas Jónsson.

Fullt nafn:
Tómas Jónsson

Aldur:
27 ára

Fjölskylduhagir:
Ég er næstum því giftur Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur og höfum við í gengi okkar Ragnheiði Sól (18), Þorgerði Kolbrá (bráðum 11) og Jónatan Knút (bráðum 3).

Starf:
Tónlistarmaður

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Ég er búinn að búa í Ölfusi í rétt tæp tvö ár.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Þetta þykir mér mjög flókin spurning. Mér finnst matur mjög góður. Alls kyns matur. Ég er aðdáandi indverskra, tælenskra og mexíkanskra rétta svo eitthvað sé nefnt. Mér kemur þó upp í huga akkúrat þegar ég skrifa þetta kúrbítslasagne sem ég held að komi úr matreiðslubók Sollu á grænum kosti. Svo finnst mér fiskur í raspi til dæmis líka æðislegur matur og meira að segja KFC!

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Geggjuð spurning. Ég myndi segja að ég hafi haft sértaklega gaman af bókunum Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson og sjálfsæfisögunum Miles (Miles Davis), Beneath the underdog (Charles Mingus) og Possibilities (Herbie Hancock) ásamt The real Frank Zappa book.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Ég horfi afskaplega lítið á kvikmyndir. Ekki af því ég hef ekki gaman af því heldur bara vegna þess að mér dettur það sjaldnast í hug ef tími gefst. Þegar ég var barn og unglingur horfði ég samt óteljandi sinnum á The Blues brothers, Dumb and dumber, Rock star, Back to the future og Oh brother where art thou. Það eru þó ansi hreint margar hljómplötur sem ég get hlustað á aftur og aftur og aftur.

Hvað hlustar þú mest á?
Maður lifandi! Þessi spurning er ennþá erfiðari en matarspurningin! Ég gæti samt trúað að tónlist þess listamanns sem fer hvað oftast undir nálina heima sé Bob Dylan.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Ég held í sannleika sagt að það sé heima hjá mér. Ég er mjög heimakær og nýt þess að vera heima hjá mér þegar ég get staldrað við.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Með því að setja á góða plötu. Ef það er ekki nóg þá helli ég uppá kaffi.

Hver er þín helsta fyrirmynd?
Ég held að allir kostir (að manni finnst) í fari fólks verði manni til fyrirmyndar. Þó að einhver manneskja sé algjör óþokki, jafnvel svo ill að það sé fyrirlitningarvert, getur verið að sama manneskja sé með einhvern einn kost sem er svo góður að það sé aðdáunarvert, svo aðdáunarvert að maður vill innleiða þann kost hjá sjálfum sér. Þá er sú manneskja orðin fyrirmynd. En mín helsta fyrirmynd? Kannski unnusta mín og annað fólk sem þorir að vera sannt sjálfu sér.

Hvaða lag fær þig til að dansa?
Það gæti til dæmis lagið Gegnum holt og hæðir með Þursaflokknum gert.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Þúsund sinnum. Til dæmis þegar ég les fallegt bréf frá unnustu minni eins og við höfum til dæmis sem hefð á afmælum og öðrum tilefnum. Svo getur það líka gerst bara ef ég er nývaknaður og sé óvart fallegt myndband af einhverjum gefa heimilislausum mat eða eitthvað í þá áttina. Ég er einkar mjúkur maður.

Hvað elskar þú við Ölfus?
Ég elska að hér er tempóið á daglegu lífi hægara en á fjölmennari stöðum. Það hentar mér vel.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Ég myndi gjarnan vilja sjá hér fiskbúð og kannski einhversskonar menningarmiðstöð með góðu hljóðkerfi og hljóðvist.

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Ég á mér annsi margar æskuminningar. Ég man í raun ótrúlega mikið frá þriggja ára aldri. Hins vegar man ég ekkert stundinni lengur í dag. Það getur komið mér og öðrum í vandræði. Ein af svona töframinningum er þegar ég fór að sjá Pétur Pan í Borgarleikhúsinu. Ég hugsa alltaf um þá sýningu þegar ég fer í Borgarleikhúsið.

Hvert dreymir þig um að fara?
Mig myndi langa að ferðast um Indland, ferðast um sveitir Japan. Mig langar líka mikið að koma til Mexíkó eða bara til Vestmannaeyja.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
Það er eitt mottó sem ég hugsa oft um og reyni að innleiða þá hugsun hjá börnunum okkar. Ég lærði það þegar ég vann einu sinni með Stefáni Karli heitnum og hann hafði lært það af einhverjum leikstjóra að ég held í bandaríkjunum. Á íslensu væri það “ekki gráta yfir því að það sé búið. Brostu því það gerðist.” Þetta finnst mér mjög gott mottó sem á oft vel við.

Hvað er framundan hjá þér?
Framundan er áframhaldandi panik ástand yfir því að heimsfaraldur er búinn að stroka allt út af verkefnalistanum hjá mér svo langt sem augað eygir.

Eitthvað að lokum?
Bless í bili og bannað að svindla í spili.

Upptaka frá tónleikum hljómsveitarinnar Tómas Jónsson sem haldnir voru á Mengi sunnudaginn 19. apríl.

Hér er hægt að hlusta á plötuna Tómas Jónsson 3 á Spotify