Ölfus hefur keypt öflugan dráttarbát

Í hádeginu í dag opnuðu Faxaflóahafnir tilboð í dráttarbátinn Jötunn sem auglýstur hafði verið til sölu. Sveitarfélagið Ölfus, fyrir hönd Þorlákshafnar, átti hæsta tilboð. Eiríkur Vignir Pálsson, formaður framkvæmda- og hafnarnefndar, segir að þetta sé sannarlega fagnaðarefni.  „Með þessu erum við að taka enn eitt risa skrefið í þróun hafnarinnar sem vöruhöfn. Markmiðið er að Þorlákshöfn verði lykilhöfn í öllum siglingum á Evrópumarkað.“

Jötunn var smíðaður í Hollandi árið 2008 og hefur verið í eigu Faxaflóahafna síðan þá sem næst öflugasti dráttarbátur hafnarinnar. Hann er 19,3 metra langur og 96 brúttótonn.  Togkraftur hans er upp á 27 tonn. Báturinn er með tvær 1.000 hestafla Caterpillar aðalvélar og 107 hestafla hliðarskrúfu. Það er því ljóst að um afar öflugt tæki er að ræða. „Ég held að þetta sýni ágætlega vilja okkar til að efla áfram höfnina“ segir Eiríkur. „Við lítum sem svo á að höfnin hafi nú þegar sannað gildi sitt enda fer i dag stór hluti af afurðum úr landi hér í gegn og að sama skapi er umtalverður hluti innflutnings hér um. Nú þegar er þörf á slíku dráttar- og björgunarskipi til að mynda til að þjónusta Akranes og Mykines sem eru í vikulegum siglingum hér um.  Þá hafa allir efnisflutningar aukist mikið svo sem með vikur, salt, áburð og margt fl.“

Mikið hefur verið fjallað um vöxt hafnarinnar og framtíðar tækifæri. Eiríkur segir að það sé mikill sóknarhugur í stjórnendum sveitarfélagsins. „Kaupin á Jötni eru eitt af þeim púslum sem þarf til að framtíðar áform okkar gangi eftir. Við getum sagt að þau séu nauðsynleg en hreint ekki nægjanleg. Við ætlum okkur enn stærri hluti. Við liggjum nú öllum árum á ríkinu að koma með okkur í þá vegferð að lengja Suðurgarðinn um allt að 300 metra auk ýmissa annara framkvæmda. Þar með gætum við tekið inn allt að 180 metra löng og 35 metra breið skip. Slíkt mun efla höfnina hratt. Til marks um hversu mikil áhrif slík framkvæmd myndi hafa þá hafa skipafélög sýnt því áhuga að hefja hingað siglingar á farþegaskipum í beinum og reglulegum siglingum á bæði Bretland og meginland Evrópu.“