Jarðefnaiðnaður með veglega sumargjöf til Níunnar

Mikil gleði ríkti á Níunni í gær þegar Einar Sigurðsson koma færandi hendi fyrir hönd Jarðefnaiðnaðar ehf. og færði Níunni stærðarinnar gasgrill af gerðinni Napoleon. Grillið hefur að geyma 8 brennara og er grillflöturinn um 7500 fersentimetrar. Það er því ljóst að hægt er að grilla ofan í allt heimilisfólkið og fleiri til.

Aðspurður um ástæður gjafarinnar hafði Einar þetta að segja: „Við vildum bara gleðja okkar besta fólk á þessum erfiðu tímum. Ekkert grill hefur verið til staðar á Níunni og náttúrulega ómögulegt að fólk geti ekki gætt sér á góðum grillmat þegar vel viðrar.“ Einar bætir við að vegna þeirra framkvæmda sem nú standi til muni íbúum fjölga og því nauðsynlegt að grillið taki mið af því. „Við vorum upphaflega að spá í fjögurra brennara grilli en sáum svo fljótt að með fleiri íbúum þyrfti stærra grill. Þetta grill ætti því að duga þar til að hringurinn er fullkláraður.“ Einar vísar þar til þeirrar framtíðarsýnar í húsnæðismálum aldraðra sem núverandi Bæjarstjórn hefur lagt upp og kynnt fyrir íbúum.

Þær Ásrún Jónsdóttir og Sesselja Sólveig Pétursdóttir veittu gjöfinni viðtöku í gær við óformlega athöfn. Þær stöllur voru að vonum hæstánægðar með þessa rausnarlegu gjöf og vildu koma innilegu þakklæti til skila til forsvarsmanna Jarðefnaiðnaðar.